top of page
Search

Þú mátt taka pláss!

Updated: Sep 3, 2022

Um daginn fór ég í brúðkaup hjá bróðir mínum og mágkonu sem var búið að standa til í 2 ár að halda en vegna heimsfaraldursins fékk það að bíða. Ekki að það skipti máli, nema að ég var búin að kaupa mér föt fyrir brúðkaupið.


Ég hafði keypt mér fína hvíta buxnadragt sumarið 2020 til að vera í brúkaupinu og svartann siffon hlýrabol við. Ekkert að því. Á þeim tíma átti ég ekki kærasta sem segir mér á hverjum degi hvað ég er falleg. Og þeir sem þekkja mig, vita að ég fer ekkert oft í kjól hvað þá sem nær niður á hné.

Þegar líða fór að brúðkaupinu núna í sumar fór ég að skoða í fataskápinn minn á ný og þar á ég bláan fallegan kjól sem ég hafði aldrei farið í á almannafæri. Ég mátaði hann og fann strax að mig langaði að fara í þessum kjól. Ég sýndi kærastanum mínum hann og honum fannst hann æði og hvatti mig til að fara í honum.


Svo leið að brúðkaupinu og ég fann að ég var eitthvað orðin efins með að fara í kjólnum. Þrátt fyrir að langa það, var ég ekki viss um að ég þyrði því. Ég fór því að skoða hvað væri að toga mig frá því að fara í kjólnum.


Ég áttaði mig á því að mér fannst óþægilegt að láta á mér bera. Mátti ekki skína, mátti ekki ,,trana mér fram”, mátti ekki finnast ég falleg í kjólnum, mátti ekki vera að monta mig á einhvern hátt. Ég mátti ekki taka pláss.


Ég áttaði mig á því að þetta var eitthvað sem ég upplifði við að vera eina stelpan í 5 systkynahópi þegar ég var barn. Ég reyndi frekar að falla inn í strákahópinn en vera stelpan í hópnum. Það fól í sér að passa að ég léti ekki á mér bera. Ég mátti ekki taka pláss.


En veistu hvað, ég má taka pláss, og þess vegna fór ég í kjólnum í brúðkaupið ég þorði að vera ég, ég var falleg í bláa kjólnum og ég er stolt af því og ég mátti það.


Ég ákvað að taka pláss og þú mátt líka taka pláss í þínu lífi, alveg eins og ég í mínu!


Kærleikur til þín

Björk Ben

 
 
 

Comments


bottom of page