Hvað gerist þegar maður er fastur í huganum
Áttu það til að reyna að leysa eitthvað sem angrar þig með því að ofhugsa?
Þú ert búin að greina hvað er að niður í frumeindir. Þú veist hvaðan þetta kemur. Þú áttir pabba sem var ekki staðar þegar þú varst barn og því upplifir þú aðskilnaðarkvíða. Og þú veist að ástæðan fyrir að þú átt aldrei pening er af því að þegar þú ólst upp, hafði mamma þín ekki mikið á milli handanna og var sífelt að tala um það.
Þú getur greint af hverju aðrir haga sér á þann hátt sem þeir gera það. Þú lest margar sjálfshjálparbækukr, og þú telur þig geta séð hvenær einhver er sjálfhverfur, meðvirkur eða fastur í fórnarlambshlutverkinu.
Ef þú lendir upp á kannt við einhvern í vinnunni, ferð þú í að greina hvernig þér líður og afhverju, og svo æfirðu aftur og aftur samtöl við viðkomandi í huganum.
Þú hefur áhyggjur og býst við því versta, svo þú reynir að sjá fyrir þér framtíðina og tekur ákvarðanir byggðar á því sem gæti gerst.
Ég er ekki að gera lítið úr því að greina hluti vel. Ég get líka gert grín að því, því áður en ég lærði að elska mig, var ég svona sjálf.
Að festast í því að reyna að skilja eitthvað niður í kjölin
Þegar ég hafði sjálf farið í gegnum þerapíuna Lærðu að elska þig, leið mér svo vel. Mér fannst ég vera búin að finna tilgang minn og fljótlega ákvað ég að læra að verða kennari í þerapíunni, því ég vildi miðla þessum frábæru fræðum áfram til annarra.
En mér fannst ég þurfa að læra meira til að geta kennt öðrum. Svo ég fór að læra að verða hugleiðslukennari líka og svo bætti ég við meðferðaraðila í dáleiðslu. Þetta var mikil vinna og lærdómur, og þarna hélt ég að ég væri komin með allt sem ég þyrfti til að geta kennt öðrum að elska sjálfan sig.
Ég hélt ég væri svo komin með þetta. Komin með allskonar tól til að líða betur, elska sjálfa mig og takast á við lífið á jávæðann hátt. En samt upplifði ég að ég væri ekki með nóg til að kenna öðrum almennilega að elska sjálfa sig. Það vantaði alltaf eitthvað aðeins upp á. Það var eitthvað tómarúm.
Taktu eftir, að ég upplifði að ég vissi ekki nóg. Ég væri ekki með nóg. Ég var þarna búin að mastera 2 mismunandi sjálfshjálparmeðferðir og búin að mastera hugleiðslur og samt var ég ekki búin að læra nóg.
Það vantaði alltaf eitthvað og það truflaði mig. Ég skildi ekki hvað var í gangi. Átti ég ekki að hjálpa öðrum að elska sjálfan sig? Ég var sannfærð um að það væri tilgangur minn svo ég reyndi eins og ég gat að greina hvað væri að, hvað vantaði.
Og það var einmitt vandamálið.
Að greina eitthvað og skilja er ekki nóg
Eftir allt sem ég var búin að leggja á mig að læra, áttaði ég mig á að það var ekki nóg að læra meira og meira, og greina og greina. Ég var aldrei búin með nóg.
Ég var vonsvikin og ákvað að hætta að hugsa um þetta í bili. Kannski var ég bara á kolrangri hillu. Kannski var ég bara ekkert efni í að kennara.
Það liðu nokkrir daga og þá rann upp fyrir mér að það að læra meira og meira, og greina allt niður í kjölin, var ekki svarið.
Að kunna allar þessar aðferðir, að skilja þær niður í frumeindir var ekki nóg.
Að nota rökhugsunina, greina og kunna allt um þessi fræði var ekki nóg, ég hafði algerlega horft framhjá mér og því sem var grafið innra með mér.
Ég var búin að reyna að læra og læra til að vera NÓG, greina og kunna allt upp á 10.
Ég hafði reynt að nota hugann og rökhugsun til að finnast ég NÓG, á meðan ég forðaðist tilfinninguna innra með mér sem hrópaði: ,,Þér finnst þú ekki vera nóg!“
Á meðan ég upplifi tilfinningalega að ég sé ekki nóg, er sama hvað ég læri og læri eða geri til að finnast ég nóg, það virkar ekki. Það er ekki hægt að grafa tilfinninguna undir visku og veraldlegum hlutum eins og að læra meira, afreka eitthvað og reyna að fá viðurkenningu fyrir t.d. gera endalaust fyrir aðra. Tilfinningin er alltaf til staðar, innra með manni, ef hún er ekki tekin upp og unnið með hana.
En hvað segir þú, átt þú til að ofhugsa eins og ég?
Þegar maður greinir vandamál finnst manni oft eins og maður sé að leysa þau. En þegar maður eyðir heilu dögunum, jafnvel sefur ekki fyrir huganum, því maður er að velta sér upp úr einhverju vandamáli. Snýr því á alla vegu og eyðir mikilli orku í að reyna að leysa það. Talar um það við vini, setur það jafnvel upp í excel til að greina það betur, þá er maður komin í þráhyggjuhugsun og fær sjaldan neina lausn.
Öll þessi vinna virðist oft eins og hún sé að skila einhverju í stuttann tíma, þú telur þér trú um að þú sért búin að leysa það og sú sannfæring varir í smá tíma en svo fer vandamálið að trufla þig aftur því það fór ekki neitt.
Málið er að svona ofhugsun eða þráhyggja er í raun flótti hugans frá því að takast á við raunverulega vandamálið, sem snýst um að horfast í augu við tilfinningarnar sem krauma innra með þér. Þegar þú reynir að nota hugann við að leysa svona vandamál ertu að forðast tilfinninguna sjálfa á meðan og það á sama við þegar þú ferð í símann og skrollar upp og niður á samfélagsmiðlum, kaupir þér eitthvað sem þú þarft ekki eða færð þér eitthvað að borða sem þú heldur að muni uppfylla eitthvað tómarúm innra með þér.
Þessar skammtíma flóttaleiðir eru bara leiðir sem hugur þinn stjórnar til að reyna að koma þér frá því að takast á við raunverulega vandamálið, raunverulegu tilfinninguna sem þú finnur innra með þér og er of sár til að viðurkenna: að þú elskar þig ekki fullkomlega af því þér finnst þú ekki vera nóg!
Hefur það að ofhugsa hjálpað þér?
Þegar maður ofhugsar gefur maður sér gjarnan hluti sem er í raun ekki réttir. Hugurinn hjálpar manni að sjá fyrir sér, býr til myndir sem eru ekki endilega sannar. Maður ályktar oft og dæmir án þess að hafa í raun rök sem standast skoðun, fyrir því sem maður ályktar.
Maður fer að búa til í huganum. Grípur eitthvað sem maður les, eða einhver segir og heldur fast í það, þótt það sé ekki satt. Af því það gefur manni niðurstöðu og þá upplifir maður að þetta sé komið hjá manni. Jebb! Ég er búin að komast til botns í þessu.
Það að ofhugsa skapar í raun bara meiri ótta og vanlíðan og sóar orku og tíma. Manni líður yfirleitt ekkert betur nema í nokkra klukkutíma, daga eða vikur. Því niðurstaðan er bull.
Ef þú ert sífellt að enda með sama vandamálið í hausnum aftur og aftur, þá þarftu að skoða aðra aðferð við að leysa það en ofhugsun.
Gefðu huganum þínum hvíld og notaðu þína sönnu visku til að leysa vandamál
Við meðtökum nýja hluti með huganum en hugurinn er ekki þar sem sannleikurinn býr.
Hlustaðu innra með þér, hlustaðu á hjarta þitt og innsæi
Sannleikurinn þinn, býr innra með þér í hjarta þínu, þar er viska þín. Hjarta þitt veit alltaf hvað er þér fyrir bestu og til þess að hlusta á hjarta þitt þarftu að fara út úr hausnum á þér og sýna hugrekki.
Hjartað lýgur ekki og það geymir lausnir við öllu sem þú þarft svör við. Hjartað þitt geymir alla visku um þig og þar af leiðandi þarftu líka að hlusta á hjarta þitt þegar þér líður illa, eða þarft að leysa einhver vandamál.
Hjarta þitt finnur til þegar þú þorir ekki að vera þú eins og þú ert. Þegar þú neitar í horfast í augu við eitthvað innra með þér og dæmir þig á þann hátt að þú elskar þig ekki fullkomlega.
Hjarta þitt þráir að vera elskað af þér, að þú samþykkir þig eins og þú ert og elskir skilyrðislaust. Hjarta þitt dæmir þig ekki sama hvað.
Þegar ég fór að hlusta á hjartað mitt og hlusta fann ég að það var sársauki þar, því ég samþykkti mig ekki eins og ég er. Ég þurfti að vera heiðarleg við sjálfa mig, þora að viðurkenna að ég finndist ég ekki nógu góð, og fyrirgefa mér það.
Þora að vera ég eins og mér er ætlað að vera í þessu lífi en ekki eins og ég hélt að ég ætti að vera, út frá því sem ég hafði lært í umhverfi mínu í gegnum lífið.
Þora að vera ég sem hef upplifað það sem ég hef upplifað og dæma mig ekki fyrir það.
Þora að fylgja hjarta mínu.
Þora að gera mistök.
Þora að standa með mér.
Þora að vera ég sjálf ALLTAF!
Elska mig skilyrðislaust
Ég get ekki lýst því hvað mér líður betur eftir að ég fór að vera hin sanna ég.
Ég þarf ekki viðurkenningu frá öðrum til að finnast ég einhvers virði.
Ég get sagt nei og sett mörk í stað þess að þóknast.
Ég get sagt allt sem ég þarf að segja út frá kærleika og virðingu í stað ótta.
Ég veit hvað ég vil og vil ekki.
Mér er sama hvað öðrum finnst um mig.
Ég elska mig sjálfa og líkama minn.
Ég skammast mín ekki fyrir að vera ég á nokkurn hátt.
Ég hef ekki þörf fyrir að dæma sjálfa mig eða aðra.
Ég hef ekki þörf fyrir að réttlæta allt eða setja fram kenningar um hitt og þetta.
Ég hef lært að heimurinn er ekki hvítur og svartur heldur í öllum regnboganslitum.
Ég lærði líka að ég þarf ekki að safna að mér meira og meira til að hjálpa öðrum til að finnast ég get kennt það sem ég kann. Um leið og ég fór að upplifa að ég væri nóg, kunni ég líka nóg.
Ef þessi skrif þín höfða til þín og þú hefur áhuga á að þora að vera þú og komast út úr hausnum á þér og hlusta á hjarta þitt, langar mig að benda þér á námskeiðið mitt sem hefst í byrjun september.
Í þessu námskeiði kenni ég þér að tengjast þér, líta inn á við, þora að vera hið sanna þú, rétt eins og ég hef lært.
Hér er tengill á upplýsingasíðu námskeiðsins: https://bjorkbenstudio.com
Okkur er ætlað að vaxa og þroskast í gegnum lífið og þegar við tökumst á við erfiðar tilfinningar gerum við það. En þegar við forðumst að takast á við þær stöðnum við í þroska og lærum alls ekki neitt.
Þegar við þorum að hlusta á hjarta okkar og elskum allt sem kemur upp, þroskumst við og vandamálin leysast upp.
Við áttum okkur á að þessi pressa sem við höfum sett á okkur er óþarfi og að það er engin sem setur hana á okkur nema við sjálf.
Við vitum betur hvað við viljum, sinnum okkur sjálfum betur og getum betur tekist á við það sem lífið færir okkur.
Kærleikur til þín
Björk Ben
Comments