Ófullkomin í hinum fullkomna heimi
- Björk Ben
- May 4, 2022
- 6 min read
Updated: May 5, 2022
Mig hafði alltaf langað til að léttast. Ég var ekkert í mikilli yfirvigt en ég leit á það þannig að ef ég hefði fullkomin líkama þá myndi allt vera frábært í mínu lífi.
Svo ég ákvað að gera eitthvað í málunum !
Þar sem ég er annað hvort eða manneskja, agaði ég mig til að fara eftir ströngu mataræði, undirbjó vikuna og máltíðir heima og borðaði nánast aldrei úti. Ég æfði líka eins mikið og ég gat, keyrði mig út þannig ég var alveg búin í 2 daga eftir hverja æfingu.
Dagurinn minn var fullkominn til kl. sjö á kvöldin. Eftir kvöldmatinn fór allt í rugl. Ég varð að skemmdarvargi sem tróð í sig alls konar rusli þar til ég fór að sofa um miðnætti í leit að betri líðan.
Ég fór að sofa full sektarkennd, illt í maganum, skammaðist mín svo fyrir að vera svona mikill auli að hafa ekki betri aga en það að detta í kexpakka eða snakkpoka. Reif mig niður.
Ég hataði sjálfa mig þegar ég læddist út um ellefu leytið um kvöld til að fara í Hagkaup og kaupa annan poka af flögum. Það var eins og ég bara yrði að brjóta reglurnar og borða þetta rusl. Mér leið eins og ég hefði enga stjórn á lífi mínu. Og ég upplifði að ég væri búin að reyna allt til að breyta þessu.

Á sama tíma var ég í vel launaðri vinnu, búin að vinna mig upp og loksins komin með stöðu sem mér fannst mjög spennandi. Skemmtilegt starfsfólk, gróska í fyrirtækinu og mikill metnaður í gangi. Samt sem áður upplifði ég tómleika tilfinningu og að ég ætti ekki heima þarna.
Núna veit ég að ég notaði mat sem huggun. Þetta kvöldnasl var af því ég var svo orkusugin á kvöldin. Ég þurfti eitthvað sem gat huggað mig og til að deyfa tilfinninguna sem stækkaði og stækkaði. Og til að reyna að þagga niður í hjarta mínu, sem sagði að ég væri ekki að lifa tilgang minn.
Því meira sem ég borðaði til að hugga mig og deyfa, því meiri löngun hafði ég. Ég var eirðarlaus ef ég var ekki södd. Í staðinn fyrir að vinna úr andlegri vanlíðan, reyndi ég að breyta mataræðinu, æfa og nota viljastyrkinn til að breyta þessu.
Á endanum áttaði ég mig á að ég var í djúpri tilfinninga holu og allar veraldlegar lausnir voru ekki að fara að hjálpa mér. Ég fann ég gat heldur ekki haldið áfram að líða svona, svo ég varð að breyta algerlega viðhorfi mínu og hegðun til að reyna að líða betur.
Stærsta viðhorfsbreytingin var að hafa meiri samkennd með sjálfri mér og hlusta á hjartað mitt og losa mig við fastar tilfinningar.
Áður reif ég mig niður, en nú reyni ég að gera mitt besta í að dæma mig alls ekki.
Áður var ég mjög upptekin af því að vera fullkomin, núna samþykki ég mig eins og ég er og að það er allt í lagi að missa tökin stundum, ef maður meðvitað tekur stjórnina á ný.
Áður reyndi ég að deyfa tilfinningar mínar, núna veit ég að ég þarf að leyfa mér að fara í gegnum þær og ég veit það getur tekið tíma.
Áður gerði ég þær kröfur á sjálfa mig að tækla hindranir í lífinu eins hratt og hægt er, nú átta ég mig á að það er betra að leyfa sér að finna og fara í gegnum tilfinningarnar sem því fylgja.
Skrefin sem ég fór í gegnum voru þessi:
1. Ég áttaði mig á mynstrinu sem ég var í
Hjá mér var það eftir kvöldmat, þá var eins og allur viljastyrkur hyrfi og þótt ég passaði að hafa ekkert rusl í augsýn skipti það engu. En bara það að átta mig á þessu mynstri var fyrsta skrefið.
2. Ég fór að hlusta eftir hvaða tilfinningar kæmu upp
Hvaða tilfinningar voru þetta sem ég var að deyfa og vildi alls ekki horfast í augu við ? Hvaðan voru þessi þreyta og tómleiki ? Var ég að gera þetta af því ég var svo uppgefin og þurfti orku ? Þegar ég hafði velt þessu fyrir mér í nokkra daga, fattaði ég að ég var að upplifa að ég væri ekki nóg. Ég fann fyrir tilgangsleysi. Ég var ekki tilbúin að horfast í augu við það og því borðaði ég til að deyfa tilfinningarnar.
3. Ég fór að hlusta eftir hvað maturinn væri að gera fyrir mig
Var ég að reyna að finna hlýju og samkennd ? Að hafa stjórnina ? Á verði ? Ég áttaði mig á að ég var að leita eftir samkennd svo ég fékk mér te og tók hvern sopa meðvitað. Ég fann hvernig mér hlýnaði við það. Ég dró andann djúpt eftir te drykkjuna og leið betur.
Stundum leið mér bara betur í smá stund. En um miðnæti langaði mér aftur í eitthvað. Þá áttaði ég mig á að ég þurfti líklega að horfast í augu við tilfinningarnar sjálfar.
4. Ég varð að taka erfitt skref og leyfa mér að finna tilfinningar mínar.
Hjá mér voru það tómleiki og vonleysi. Ég þurfti að leyfa mér að sitja í þeim tilfinningum og virkilega sleppa þeim. Ég þurfti að viðurkenna þær.
Stundum leið mér hræðilega og ég þurfti að gráta, og þá leyfði ég mér það. Stundum var ég mjög dofin og fann mikla tómleika tilfinningu. En þessar tilfinningar, eins og aðrar, eru eðlilegar. Ég þurfti bara að viðurkenna líðan mína og leyfa mér að upplifa tilfinningarnar. Með æfingunni og tímanum fann ég hvernig hnúturinn í maganum og tómleikatilfinningin minnkaði og minnkaði.
5. Hvað var ég að fara í gegnum ?
Ég spurði mig af hverju mér liði svona. Var ég þreytt eða yfirkeyrð ? Var ég óhamingjusöm með líf mitt ? Ég hélt áfram að spyrja mig og rannsaka betur hvernig mér leið. Stundum hélt ég að ég væri komin með svarið en svo koma þessi tilfinning aftur og þá vissi ég að ég yrði að spyrja áfram. Með því að spyrja aftur og aftur kom svarið loksins til mín, sem ég fann að var rétt.
Hjá mér uppgötvaði ég að ég var að upplifa að ég var ekki að lifa tilgang minn. Ég fann ekki þá næringu lengur sem hafði áður fundið í lífi og starfi. Þetta var að hafa áhrif á mig alla daga.
Ég þurfti því að gera viðhorfsbreytingu hjá mér, endurskoða aðeins hvað það væri sem myndi næra mig og breyta í samræmi við það. Ég þurfti að sýna hugrekki til að breyta og það var ógnvekjandi til að byrja með, en með hverjum deginum áttaði ég mig á að ég varð að gera þessar breytingar og að þær voru réttar.
Það er aldrei svarið að ana að neinum stórum breytingum, sérstaklega þegar maður er fara í gegnum eða gera upp gamlar tilfinningar. Maður þarf einmitt að nota tilfinningar til að finna hvort maður er að gera rétt og það tekur alltaf smá tíma.
Við erum oft með venjur og hegðun sem er algerlega ómeðvituð sem hefur mikil áhrif á líf okkar. Þessir þættir geta étið okkur að innan eins og þessar tilfinningar voru að gera hjá mér.
Ef þú stendur þig að því að þú sért að borða til að bæta líðan þína, þarftu að átta þig á að það snýst um eitthvað miklu stærra en þú heldur. Það er mjög líklegt að það sé eitthvað sem þú átt erfitt með að horfast í augu við. En þarft nauðsynlega að gera.
Eftir því sem vaninn verður sterkari verður líðanin meira öfgakennd. Svo það þarf að vinna með að breyta vananum, leysa upp tilfinningarnar og breyta hugsunum til að vinna á þessu. Þess vegna virkar ekki að nota viljastyrkinn einn og sér. Né að fara á strangt mataræði eða æfa stífa líkamsrækt. Það er eðlilegt að þú getir ekki gert þetta án þess að skoða líðan þína svo ekki dæma þig fyrir það.
Mundu að hvernig þú tekur á þinni líðan er alltaf þitt val.
Hvort sem þú upplifir vonleysi eða ekki, þá máttu vita að þú getur gert breytingar á þínu eigin lífi. Það er eðlilegt að mistakast stundum, en með því að læra af mistökunum þínum og muna eftir að heila þinn andlega þátt líka geturðu breytt lífi þínu ti frambúðar. Andleg líðan hefur áhrif á svo miklu meira en við áttum okkur oft á. Ekki vanmeta það. Leitaðu frekar aðstoðar með að sleppa þínum tilfinningum ef þú upplifir að geta það ekki upp á eigin spýtur.
Comments