top of page

Ég er ekki sú sem ég var



Þegar ég hitti fólk sem ég hef ekki hitt lengi, getur verið að fólk verði hissa, því ég hef breyst. Ég upplifi að margir af mínum nánustu, bæði í fjölskyldu og vinir, ætla mér að haga mér og vera, eins ég var, en skilja ekki að ég er ekki sú manneskja lengur. Ég tek ekki þátt í leikritinu sem fylgir oft meðvirkni eins og ég gerði áður. Ég get aldrei farið til baka og ég vil það ekki. Ég þurfti að vaxa, þroskast, fá að vera ég. Ég þurfti að finna mig og leyfa mér að vera ég sjálf. Ég þurfti að tengjast sjálfri mér, hjarta mínu, sálinni minni sem er hin raunverulega ég. Ég þurfti að líta inn á við og finna mína leið, mína hamingju og ást til mín og lífsins. Ég þurfti að fara nýja leið og hugsa lífið upp á nýtt. Læra að elska mig, njóta þess að vera til og velja út frá mér ekki því sem ég upplifði að aðrir vilja. Ég hef lært að vera heiðarleg og bera virðingu fyrir mér. Sýna mér ást og kærleika. Fyrst þá upplifi ég að ég geti sýnt öðrum það líka. Ég hef lært að það getur enginn nema ég skapað mína hamingju og ég vel hvað og hver getur haft áhrif á mína líðan. Ég hef lært að þegar mér líður illa, þá þarf ég að líta inn á við, en ekki fara í að vera fórnarlamb einhvers annars. Ég hef líka lært að ég get ekki breytt öðrum og ég samþykki alla, sama hvernig þeir eru. Allir eru á sinni leið í gegnum lífið, leið sem aðeins þeir geta sjálfir borið ábyrgð á og breytt ef þeir vilja.

Ég hef upplifað að þeir sem hafa þekkt mig áður reyna sífellt að toga mig aftur í að vera ég eins og ég var. En skilja ekki, að ég get það ekki og ég vil það ekki.

Ég var sofandi, ómeðvituð og bar enga ábyrgð á hvernig ég var. Ég mótaðist eins og flestir af umhverfinu sem ég var í og hafði ekki hugmynd um hver ég var og hvað ég vildi. Ég kunni ekki að takast á við tilfinningar mínar og ég var oft fórnarlamb atvika eða gjörða einhvers annars. Ég var ekki í neinni tengingu við mig. En ég er ekki fullkomin frekar en einhver annar, en hvern dag held ég áfram og læri meira. Ég læri af mistökum, ég læri af lífinu og á meðan ég geri það meðvitað, veit ég að ég er á réttri leið.

Ég hef lært í minni sjálfsvinnu að dæma hvorki mig né aðra, það eru allir á sinni leið í gegnum lífið. Engin ein leið er sú rétta. Eina sem ég veit er að þegar ég hlusta eftir hvað hjarta mitt segir, þá heyri ég að ég er á réttri leið fyrir mig og það er mér nóg.

Því miður er samfélagið sem við búum í uppfullt af mýtum um hvernig við eigum að vera og hvernig við eigum ekki að vera, sérstaklega á yfirborðinu, út á við. Okkur er kennt að vera sífellt að bera okkur saman við aðra og dæma okkur sjálf og aðra. En ég neita að taka þátt í því. Ég reyni eins og ég get að sleppa því, því þegar við erum að bera okkur saman og dæma erum við að láta ótta stjórna okkur, ótta við að við séum ekki nóg og líka að aðrir séu ekki nóg.

Ég veit að það er allt eins og það á að vera, ef mér líður illa, er það af því að ég er í einhverskonar kennslustund og ég þarf að finna lærdóminn innra með mér til að komast yfir vanlíðanina.

Ég sýni því skilning að aðrir skilja mig ekki, sérstaklega þeir sem þekktu mig áður en ég ,,vaknaði" til meðvitundar. Ég dæmi það ekki, en vona innilega að þeir sömu, sýni mér skilning og átti sig á að ég ræð hvernig ég bregst við og að mér ber ekki skylda til að taka þátt í meðvirkni eða öðru hegðunarmynstri. Ég elska fólkið mitt og vini, sendi þeim kærleika og vona innilega að þeir sem það þurfa, sleppi tökunum á að ég sé ekki eins og ég var, eða þeir vilja, og geti tekið mér eins og ég er í dag.

Kærleikur til þín Björk Ben

176 views

Recent Posts

See All
bottom of page