top of page
Search

Ég er brotin og fullkomlega ófullkomin!


Ég vildi óska að ég hefði ekki eytt svona miklum tíma í að sannfæra aðra um að ég væri verðug.


Áður var ég tilbúin að sætta mig að vera elskuð með skilyrðum annarra sem áttu mig ekki skilið.


Ég hefði aldrei átt að þurfa að afsaka hver ég er, en yngri og óþroskaðri ég, var ekki nógu sterk til að standa með sjálfri mér.


Það var alltaf sárt að upplifa að ég væri ekki nógu góð, ég þyrfti að breytast eða vera skilin eftir. Ég hélt það væri eitthvað að mér. Ég var ekki nógu falleg, ég var ekki nógu skemmtileg, ég var ekki nógu skynsöm, ég var of alvarleg, ég var of stíf, svo eitthvað sé nefnt. Ég skildi ekki af hverju ég var alltaf sú sem eitthvað var að.


Ég veit núna að ég hefði aldrei átt að fórna því að vera ég sjálf, til að vera sú sem aðrir vildu að ég væri. Ég veit núna að ástæðan fyrir því að ég var orðin ,,leiðinleg“ er sú að ég var að svíkja sjálfa mig með því að vera ekki ég sjálf.


En óttinn við að vera ekki samþykkt, elskuð eða ekki nógu góð var til þess að ég sagði ekkert og gerði ekkert til að standa með mér.


Ég geri mér grein fyrir í dag að ég var að reyna að elska þá sem sáu mig alls ekki né voru færir um að elska aðra. Ég upplifði að ég væri ekki nógu góð og að ég ætti sökina. Mér var sýnd vanvirðing, ég skammaðist mín og ég reyndi að þóknast.


En ég er ekki þarna lengur.


Ég gæti verið mjög bitur og full eftirsjá eftir þennan tíma sem ég eyddi í að reyna að elska án þess að vera elskuð til baka. Ég gæti verið bitur fyrir allt niðurbrotið sem ég upplifði.


Ég gæti verið að velta því fyrir mér hvað hefði gerst ef ég hefði staðið með sjálfri mér og hvernig hlutirnir hefðu farið öðrvísi.


Ég gæti líka verið reið og sár út í þá sem eiga hlut að máli.


En ég er ekki þarna heldur.


Ég veit ég get aldrei farið til baka og breytt fortíðinni svo ég ákvað að sleppa tökunum af eftirsjá og biturleika.


Ég veit að ég þurfti að ganga í gegnum þetta allt saman til að vera sú sem ég er í dag. Þessi lífreynsla er partur af þroska mínum og gerir mig sterkari í dag. Ég veit hvað ég vil og hvað ég vil ekki. Eins sársaukafullt og þetta var, veit ég að ég þurfti að ganga þennan veg til að horfast í augu við mig og finna mig.


Ég er þakklát fyrir þessa reynslu í dag, því í dag er ég sterkari og þekki mig betur og þori að vera ég.


Í dag veit ég hvað ,,heilbrigð“ ást er. Ég elska mig sjálfa skilyrðislaust, ég veit hver ég er, hvaða skoðanir ég hef og hvað mér líkar og líkar ekki. Ég hika ekki við að láta vita ef mér er misboðið og ég tala út frá hjarta mínu.


Ég er hætt að reyna að þóknast öðrum og sækjast eftir að fá viðurkenningu. Þeir sem ekki vilja taka mér eins og ég er mega eiga það við sig. Ég geng ekki á eftir þeim.


Að velja að elska sjálfa mig fyrst og fremst og bera virðingu fyrir mér og mínum tilfinningum er það sem skiptir mestu máli. Þá lifi ég í samkvæmt sálinni minni. Þá er ég líka fær um að elska aðra á sama hátt, fjölskyldu mína, vini og kærasta. Ég kem fram af kærleika og heilindum og vel að umgangast fólk sem sér mig eins og ég er. Ég mæti fólki þar sem það er, ekki þar sem ég vil að það sé. Ég geri mitt besta í þeim aðstæðum sem ég er hverju sinni og sýni öðrum samkennd en fer ekki inn í það sem aðrir eru að kljást við.


Ég leitast við að hjálpa öðrum sem vilja mína hjálp við að finna sjálfan sig, en átta mig á að ég get ekki hjálpað þeim sem vilja ekki hjálp. Það er partur af því að mæta fólki þar sem það er. Því allir eru á sínum forsendum í þessu lífi að díla við sitt.


Ég var brotin og ég hélt ég væri ekki nóg, en í dag er ég þakklát, því lærdómurinn sem ég öðlaðist er í raun sprungurnar sem ég þurfti til að hleypa ljósinu inn, ljósinu frá Alheimnum. Ég nota innsæið mitt í dag og þori að fara eftir því. Þá veit ég að ég er alltaf á leiðinni sem er mér fyrir bestu.


Í dag veit ég að ég er brotin, ég er yndisleg og einstök mannvera. Ég er fullkomlega ófullkomin og að ég er ÉG. Það skiptir öllu máli !


Kærleikur til þín

Björk Ben


P.s. þessi pistill sem og aðrir pistlar á þessari síðu eru skrifaðir út frá mér og engum öðrum, þessi skrif eru á engan hátt gerð til að særa aðra, sækjast eftir vorkun eða athygli á mig sem einstakling. Heldur er ég að vonast til að einhverjir tengi við það sem ég skrifa og það geti hjálpað þeim á einhvern hátt.

 
 
 

Comentarios


bottom of page