Veistu hver þú ert ?
- Björk Ben
- May 16, 2022
- 3 min read
Þegar við erum börn höfum við ekki möguleika á að velja hverju við trúum en við lærum hverju við eigum að trúa frá foreldrum okkar, skólanum og fleiri áhrifavöldum. Við trúum öllu sem fullorðna fólkið segir okkur. Það sem við lærum verður að okkar skoðunum og mótar okkar lífsviðhorf og skoðanir. Hugsanlega reynum við sem börn að hafa aðrar skoðanir, gerum uppreisn á einhverjum tímapunkti, en við finnum fljótt að okkar skoðun er ekki nógu sterk og við gefum eftir. Þannig förum við að trúa því sem aðrir kenna okkur að trúa.

Sem börn var okkur fyrst kennt að tala og segja orð eins og kona, maður, barn og fullorðin. Síðan var okkur kennt hvernig þau eru, kona, maður, barn og fullorðin, hvernig þau haga sér mismunandi og hvað þau gera og hvað ekki. Við lærðum að dæma bæði sjálf okkur og aðra. Dæma hvað er gott og hvað er ekki gott. Hvað er í lagi og hvað er ekki í lagi.
Þegar við gerðum ekki eins og til var ætlast, fengum við að heyra það og lærðum að það var ekki gott að gera ekki það sem var „rétt“. Fljótlega urðum við hrædd við að gera hlutina rangt og reyndum að gera frekar allt rétt til að fá frekar hrós fyrir og til að fá jákvæða athygli frá fullorðnum. Þóknast þeim. Við fórum að gera hluti gegn okkar sannfæringu bara til að þóknast. Við vildum ekki vera öðrvísi, ekki vera hafnað af foreldrum, systkinum, vinum, kennurum eða samfélaginu. Við hættum að þora að vera við sjálf og fórum að þykjast vera öðrvísi. Með tímanum þurftum við ekki að þykjast, við breyttumst hreinlega í afrit af helstu áhrifavöldunum okkar.
Allt okkar innsæi og allar okkar skoðanir hurfu af yfirborðinu, við þekkjum þær ekki lengur. Við hættum að þora að vera við sjálf og treysta okkur sjálfum. Upplifðum að það er ekki í boði.
Þegar við eldumst erum við orðin svo vel þjálfuð í að vera eins og samfélagið vill að við þurfum ekki lengur að hafa einhvern sem segir okkur hvernig við eigum að vera. Við erum sjálf farin að segja sjálfum okkur hvernig á að vera eða ekki vera, og öðrum líka.
Við refsum sjálfum okkur fyrir að gera ekki rétt. Við dæmum okkur sjálf og rífum okkur niður. Þetta gerist oft á dag, dag eftir dag, ár eftir ár. Við upplifum okkur sem fórnarlömb, finnum fyrir sjálfsásökunum, skömm og sektarkennd. Við vorkennum sjálfum okkur og dæmum okkur fyrir að vera ekki nóg á nokkurn hátt. Ekki nógu klár, ekki nógu falleg, ekki nógu góð, ekki nógu dugleg o.s.frv. *
Allan tímann erum við í innri baráttu, við erum ekki í jafnvægi, því við getum ekki verið í jafnvægi í svona ástandi. Undir niðri eru okkar eigin gildi og okkar eigin skoðanir og innst inni vitum við að það sem okkur hefur verið kennt er ekki endilega rétt. Þessi sanni hluti af okkur vill hjálpa okkur að lifa því lífi sem okkur er ætlað og reynir að koma okkur í skilning um það á ýmsann hátt.
Þess vegna er svo mikilvægt að taka skrefið í að fara í einhverskonar sjálfsskoðun. Komast að því hver þú ert í raun og veru. Hvað vilt þú ? Hverjar eru þínar skoðanir ? Hvernig vilt þú lifa þínu lífi ?
Það er hægt að leita til allskonar aðila sem geta hjálpað okkur. Það eru til mjög margar bækur um efnið og eins youtube myndbönd og bíómyndir. Finndu það sem höfðar til þín og taktu skrefið. Þú munt ekki sjá eftir því.
Comments