Ég var meðvirka týpan, líklega er ég pínu meðvirk á sumum stöðum ennþá. En ég er að læra.
Ég var dugleg að skoða hvað aðrir voru að gera og taka mínar ákvarðanir út frá því. ,,Hva maður lærir af því sem aðrir eru að gera, ekki satt?" Ég hef metnað og ætlaði mér langt. Þegar ég náði einu markmiði setti ég mér nýtt stærra markmið.
Ég átti, maka, einbýlishús, börn og var í góðri stöðu. Allt svo fínt og flott og allt gekk svo vel. Fólk dáðist að því hvað ég var ,,dugleg"!
Geggjað líf!
Það vantaði samt eitthvað. Þegar ég leit í spegil og spurði: ,,Hvað vilt þú?" kom kökkur í hálsinn. Lengi hundsaði ég þennan kökk. ,,Hva, þetta er bull, það er allt geggjað hér!" setti upp bros og hélt svo út í daginn.
En ég leit aldrei mér nær. Ég skoðaði aldrei hvað ég sjálf vildi. Ég var ekki ég sjálf. Ég var mótuð af mínu ytra umhverfi. Ég var mjög ómeðvituð um hvað ég vildi og hvernig mér leið.
Eftir að ég varð ein, fór ég að gera æfingar sem hjálpuðu mér að vera í meðvitund oftar. Ég fór að æfa mig að hugleiða, setjast niður án áreitis og bara hlusta. Skoða aðeins hver ég er.
Ég fór að átta mig á að ég hafði í mörg ár ekki þorað að vera bara ég. Við tók mikil vinna að skoða betur hver ég er. Finna út hvað voru mínar skoðanir og mínir draumar. Hvað mig langaði að gera, út frá mér en ekki öðrum.
Á einhverjum tímapunkti í barnæskunni byrjaði ég að trúa því að ég og mínar skoðanir væru ekki nógu góðar. Ég væri ekki nógu góð! Að ég þyrfti að hlusta á aðra og sannfæra þá á einn eða annan hátt til að það væri í lagi að framkvæma eða vera.
Við mótumst öll af því sem við upplifum ef við erum ekki meðvituð og þekkjum hvað er að gerast og veljum að láta það ekki hafa áhrif á okkur. Börn hafa yfirleitt ekki getu til að vita hvaða tilfinningar koma og hvað þá skilja hvernig þau geta sleppt því að láta þær setjast að, þegar eitthvað gerist sem hefur áhrif á þau.
Við mótumst því mest af því sem við upplifum og hvernig við túlkum það, sem gerist þegar við erum börn.
En við þurfum ekki að láta trú eins og ,,Ég er ekki nógu góð" hafa áhrif á okkur allt okkar líf, við getum breytt því. Við getum breytt okkar sannleika og þar með lífi okkar. Það hef ég gert og það getur þú líka.
Ég er nóg alveg eins og ég er og það ert þú líka. Ég veit að þú veist það alveg, en galdurinn er að ná því úr undirmeðvitundinni, en það þarf að rífa þessa gömlu trú upp með rótum þar og setja aðra í staðinn sem er uppbyggileg og jákvæð. - Það þarf að uppfæra ,,kerfið" í huganum.
Ef þig langar að breyta þinni úreltu trú um þig, mæli ég með að skoða allt um HUH - Hröð Umbreyting á Hugsanamynstri!
Kærleikur og ljós til þín!
Bjork Ben
Comments