top of page

Hvernig gekk að slaka á í fríinu?

Writer's picture: Björk BenBjörk Ben

Viltu vita af hverju þú átt erfitt með að slaka á og leggja frá þér símann, jafnvel þótt þú sért langt frá öllu daglegu amstri ?


Varstu stöðugt að kíkja á tölvupóstinn þinn eða skilaboðin, fórst yfir í huganum marg oft hvað þú þarft að gera þegar þú kemur aftur heim og fannst jafnvel fyrir smá kvíða yfir því öllu saman. Áttirðu erfitt að slaka bara á og njóta og þurftir að hafa dagskrá, og þess á milli varstu í símanum að skoða samfélagsmiðlana. Svona eins og þú hreinlega værir að forðast að vera með sjálfri þér, vera hér og nú, hvíla þig og slaka á, jafnvel þótt þú hefðir verið í algerri paradís í frínu.


Af hverju eltir þetta mynstur þig hvar sem þú ert ?

Af hverju þarftu alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni, getur ekki slakað á, verður að hafa meira en nóg að gera, meira segja þegar þú ert í fríi ?


Ég veit að margir myndu segja að þetta kallaðist að vera í flótta frá sjálfum sér, vera með athyglisbrest eða að vera duglegur. En ég er ekki alveg sammála því, þetta er dýpra en það.


Þetta snýst ekki bara um vanann sem við höfum skapað okkur og samfélagsmiðlar og annað áhorfsefni hjálpa okkur við að skapa...þetta er líka ákveðin varnarviðbrögð í undirmeðvitundinni.


Undirmeðvitund okkar telur nefnilega að það sé ekki óhætt að staldra við og slaka á. Hún heldur því fram að það sé ekki óhætt að hvílast eða hætta að vera alltaf að.


Við lifum í samfélagi þar sem okkur er kennt að virði okkar sé metið út frá því hversu dugleg við erum, hversu mikið okkur tekst að áorka og klára. Okkur er ekki óhætt því ef við hættum að vera alltaf á fullu spani og hægjum á okkur, þá förum við að finna hvernig okkur líður.


Okkur er kennt að eina leiðin til að vera viðurkennd og ganga vel í lífinu, er að vinna stanslaust og vera dugleg þar til við getum það ekki lengur. Okkur er kennt að við þurfum að vinna okkur inn hvíld, gleði og hamingju, við þurfum fyrst að vera dugleg, svo megum við njóta.


Þegar við reynum að slaka á, koma varnarviðbrögðin fram og hugurinn fer í eirðarleysi og vill að við gerum eitthvað í því. Því sársaukinn sem fylgdi því að upplifa tilfinningarnar á sínum tíma var svo sár, og hugurinn er að vernda okkur fyrir þeim sársauka.


Þetta gerist auðvitað allt ómeðvitað.


Þetta mynstur getur verið erfitt að komast út úr og getur farið yfir í kulnun. Við upplifum að við séum fórnarlamb. Það kemur tómleiki og sorg. Við hugsum til baka og getum upplifað þunglyndi, við hugsum um hvert við stefnum og getum upplifað kvíða yfir því. Við rífum okkur niður fyrir að vera komin þar sem við erum. Upplifum að við séum ekki nóg.


Hugurinn okkar og tilfinningar okkar hafa svo sterka tengingu. Líðan okkar og taugakerfið hafa áhrif á hvað við hugsum. Og hvernig við hugsum hefur svo aftur áhrif á tilfinningar okkar.


Hugurinn okkar er eins og gæludýr, hann lærir af reynslunni og reynir að gera allt sem hann heldur að við viljum byggt á henni. Hann vill endurtekningu dag eftir dag, því hann vill það sem hann þekkir og forðast allt sem hann þekkir ekki. Hann forðast líka það sem við höfum upplifað erfitt á einhvern hátt, því hann telur að þannig geti hann hjálpað okkur að líða vel. Hann er því ekki alltaf uppbyggilegur og getur verið okkar versti óvinur ef hann fær að stjórna. Hann stjórnar þegar við erum ekki í meðvitun.


Tilfinningarnar eru eitthvað sem við upplifum. Þær eru einstakar fyrir hvern og einn. Þær eru til að læra af þeim og við fáum sömu tilfinningar aftur og aftur þar til við erum tilbúin í að taka við lærdómnum. Til þess að geta lært af þeim, þurfum við meðvitað, að taka eftir þeim og leyfa okkur að skoða þær. Það er ekki hægt að gera það ómeðvitað, því þá stjórnar hugurinn þeim og tilfinningarnar heltaka okkur og hugurinn kemur með varnarviðbrögð: ,,ó nei ekki þetta núna, það er of sárt. Gerum bara eitthvað annað í staðinn.“


Trúðu mér, að þurfa að vera stöðugt upptekin, stöðugt áreiti og vera alltaf þreytt þarf ekki að vera þitt ,,eðlilega“ ástand og hvað þá þegar þú ert í fríi.


Þegar við náum að vera í meðvitund getum við tekið ábyrgð á okkar hugsunum, orðum, gjörðum og lært betur á tilfinningar okkar. Við getum valið hvernig við bregðumst við því sem gerist og við tökum ábyrgð á okkar eigin lífi og hamingju.


Og það sem er kannski best af öllu, við þekkjum okkur betur og okkur líður betur. Því við kunnum að slaka á, við hlustum á líkamann okkar og bregðumst við þegar hann þarf næringu í formi matar eða hvíldar. Við hlustum á hvernig okkur líður og hvað við erum að hugsa og bregðumst líka við því með því að skoða hvað er í raun í gangi og sleppum svo tökunum á því en drögnumst ekki með það áfram í lífinu.


Að læra að vera í meðvitund, þekkja sjálfan sig betur, taka ábyrgð á lífi sínu og læra af tilfinningum sínum er einmitt það sem ég kenni mínum skjólstæðingum.


Ef þú ert tilbúin að virkilega vinna með sjálfa þig og breyta þínu lífi, skaltu senda mér skilaboð og við skoðum hvort við eigum samleið í þinni sjálfsvinnu.


Kærleikur til þín

Björk Ben


146 views

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page