top of page

Ég var sjúklega óörugg í mínu sambandi

Writer's picture: Björk BenBjörk Ben

Lykillinn að góðu sambandi við aðra

er að vera í góðu sambandi við sjálfa sig og elska sig.



Þú ert í sambandi með aðila sem þú upplifir að þú ,,elskar“ óbærilega mikið, en ert svo óörugg um hvort hann elski þig. Hinn aðilinn er komin með nóg, vill fara.


Þú færð yfirþyrmandi tilfinningu um að þú getir ekki lifað án hans. Hver fruma í líkama þínum upplifir að eina leiðin til að lifa af þessa vanlíðan, sé að fá hann til að hætta við að fara frá þér.


Þú áttar þig ekki á því að það sem gerist er að tilfinningarnar þínar taka yfir huga þinn og líkama, ómeðvitað. Þú upplifir að þú verðir að fá ástvin þinn til að hætta við að fara, með því að sýna honum nánd og umhyggju, kaffæra honum í ást.


Þú gerir og segir hvað sem þú heldur að geti hjálpað þér að ná því fram. Þú sendir stöðugt skilaboð, þú veltir þér upp úr ótal spurningum, þú ofhugsar, þú grætur, þú reynir að þóknast, þú færð þráhyggju yfir að vakta símann þinn og svo framvegis.


Um leið og þú upplifir minnstu vísbendingu um höfnun eða vera skilin eftir, tekur þessi tilfinning yfir því þú þarfnast ást og umhyggju.


Ef þú sæir hlutina í réttu ljósi, áttaðir þú þig á að þessi aðili getur ekki farið úr þessu ástarsambandi, því hann hefur aldrei verið í því, hvort sem er líkamlega eða andlega.


Ég er ekki á nokkurn hátt að þykjast vita hvernig þér líður eða hvernig þú ert, eða dæma þig, en ég skil þig. Og vonandi skilur þú líka þegar þú lest áfram hvað ég er að fara með þessu.


Ég var svona. Ég varð svo óörugg ef ég upplifði jafnvel bara minnstu vísbendingu um að eitthvað var að, þá varð ég mjög upptekin af því að ,,laga“ það, með því að reyna að sýna hvað ég elskaði mikið. Þetta var erfitt, tók mikla orku, hafði slæm áhrif á mig líkamlega og andlega. Ég missti mörg kíló á nokkrum dögum, ég borðaði ekki, mér var flökurt, ég svaf ekki, ég var föst í örvæntingu.


Sumir myndu kannski halda því fram að ég hafi verið ,,klikkuð“ eða ,,of þurfi“ eða eitthvað álíka. En ég veit í dag að það er ekki rétt. Ég vissi ekki að ég var í eitruðu mynstri og kunni ekki að laða að mér heilbrigt samband. Sorglegt en satt, ég vissi ekkert hver ég var. Ég var týnd í að þóknast öðrum til að vera elskuð.


Ef þú tengir við þetta, er mjög líklegt að þú eins og ég, hafir ekki upplifað þá umhyggju og ást sem þú þurftir í æsku.


Þegar við fáum ekki þá ást og umhyggju sem við þurfum í æsku, er mjög líklegt að við förum út í lífið og finnum okkur ástvin sem getur ekki tjá ást einhverra hluta vegna og við reynum að drekkja honum í ást, til að fá ást og umhyggju til baka. Við upplifum óöryggi í sambandinu, erum alltaf að spyrja okkur hvort eitthvað sé að, þannig erum við föst í neikvæðum hugsunum og njótum ekki þess að vera í sambandinu. Og við fáum þessa yfirþyrmandi þörf fyrir að vera séð og svakalegan kvíða og jafnvel ábrýðisemi þegar við skynjum að sambandið gæti verið að enda.


Við upplifum að til þess að halda hinum í aðilanum í sambandinu, setjum við viðkomandi á stall, forgangsröðum hans tilfinningum sem okkar eigin, reynum að gera allt sem viðkomandi vill og höldum að það verði til þess að hann fari ekki.


En í staðinn fyrir að þetta virki, fáum við vanvirðingu því við erum hætt að hafa sjálfstæða hugsun sem við þorum að tjá okkur um. Við hættum að þora að hafa skoðanir, láta í ljós okkar tilfinningar og lifum bitur í skugga hins aðilans.


Við vitum ekki hvað ást er og við elskum okkur ekki fullkomlega og getum því ekki elskað aðra. Kannski ertu ekki sammála mér þarna. Kannski fannst þér þú hafa elskað mjög mikið. Jafnvel upplifirðu að þú hafir fundið mjög sterka ást upp á líf og dauða. En innst inni er lítill bútur innra með þér sem hefur áttað sig á að það er ekki ást. Ást á ekki að þurfa að vera svona dramatísk og sársaukafull. Ást er ekki spennuþrungin.


Þú áttar þig á að þetta mynstur er ekki ást. Öll skiptin þar sem þú vissir innst inni að það er verið að koma fram við þig af vanvirðingu. Andartakið þegar þú áttaðir þig á að þú ert ekki í sambandi sem nærir þig ekki og er ekki gott fyrir þig.


Málið er að þetta snýst um að vera ástfangin af því að vera elskuð. Við upplifum að ef við finnum ekki að aðrir elski okkur séum við ekki verðugar og getum við ekki verið hamingjusamar án þessarar ástar.

Þess vegna löðum við að okkur aðila sem mæta ekki okkar þörfum eða aðila sem sjá okkur ekki og þess vegna getum við ekki hugsað okkur að vera einar.


Treystu mér, ég veit að það er mjög sárt að uppgötva að maður er svona, en því fyrr sem þú ert tilbúin að horfast í augu við það, getur þú gert eitthvað í málinu og breytt þessu.


Ég veit að það sýnist ómögulegt og þú gætir upplifað uppgjöf og dæmt þig alveg óhæfa í að vera hamingjusöm eða vera í sambandi. En trúðu mér þú getur heilað þetta, orðið sjálfsöryggari og losað þig við þetta mynstur.


Ég gat gert það og þú getur það líka. Ég er ekki að segja að ég sé fullkomin, en með því að vera meðvituð og þora að vera ég sjálf er ég ekki lengur í þessu mynstri.


Þú getur það líka. Þú getur líka fundið sjálfsöryggi þitt og eflt þína sjálfsvirðingu svo þú þorir að vera þú og finnir hamingjuna þar sem hún er að finna – innra með þér en ekki hjá öðrum. Þú getur bætt sambandið sem þú ert í í dag, eða verið betur undirbúin fyrir nýtt samband þar sem þú gætir blómstrað með því að fara í þessa sjálfsvinnu.


Hér fyrir neðan eru nokkrir punktar sem mig langar að deila með þér, því þeir hafa hjálpað mér svo mikið


1. Ekki ofhugsa

Ef þú ert óörugg í ástarsambandi, eitt af því sem er algengt er að ofhugsa hluti. Ofhugsa um hvað hinn aðilinn ætli sér næst, ofhugsa um af hverju hann fór. Ofhugsa af hverju þú heyrir ekki frá honum, ofhugsa afhverju hann hætti við plönin með þér, ofhugsa síðustu færslu á samfélagsmiðlunum, ofhugsa afhverju hann setti ekki hjarta á þína færslu, ofhugsa um hvernig þú getur fengið hann til baka, ofhugsa um hvernig honum líður. Ofhugsa um allt mögulegt.


Hugur þinn upplifir að honum sé ógnað, og þú ert að hugsa um allar mögulegar ástæður fyrir því afhverju það er að gerast og hvernig er hægt að leysa það. En það er ómögulegt, því lausnin er ekki í að hugsa.


Minntu þig á að sögurnar sem þú ert að búa til í huga þér eru að auka á streitu og kvíða hjá þér. Dragðu andann djúpt að þér og haltu þig við staðreyndir. Staðreyndir er það sem er satt en ekki ályktað eða búið til út frá því sem er sagt.


2. Vertu meðvituð um orkuna

Tilfinningin sem maður fær þegar maður er í návist einhvers sem er full af óttaþrunginni spennu og ,,ást“ en þú þekkir viðkomandi ekki neitt eða jafnvel viðkomandi kemur illa fram við þig. Það er ekki ást. – Það er ekki óttaþrungin spenna í kringum ást.


Þú heldur að þessi tilfinning sé ást, en hún er ekki ást. Þú ert að upplifa að þú tengir við viðkomandi, hugsanlega af því þú hefur áður farið í sambönd þar sem viðkomandi var í svipaðri orku. Eða kannski finnurðu svipaða orku og þú fannst þegar þú varst barn og umgengst pabba þinn eða mömmu. Spenna og gleði, með fyllingu af ótta, kvíða og eftirvæntingu í þá fáu skipti sem þau sáu þig virkilega.


Þú vilt læra að breyta þinni orku. Það gerir þú með því að efla sjálfsvirðingu þína, sjálfstraust og elska þig skilyrðislaust. Þannig laðar þú að þér aðila sem gera það líka.


Í stað þess að fara inn í þessa orku viltu læra að þekkja hana sem viðvörunarmerki um að gera það ekki.


3. Slepptu tökunum á að upplifa ást frá þeim sem þú þráir hana mest frá.

Oftast er hér um að ræða foreldra þína. Þú munt aldrei upplifa ástina sem þú fékkst ekki í æsku. Sama hvað þú reynir að finna hana í öðru fólki og ástarsamböndum. Þú munt ekki öðlast hana. Ég veit að þetta er erfitt að sætta sig við. Þetta er ástæðan fyrir óöryggi þínu.


Þú fékkst þá flugu í höfuðið sem barn að þú ættir ekki skilið að vera elskuð. Þessi fluga varð að þinni trú um þig sem fylgdi þér svo yfir á fullorðinsár.


Það að eltast við að vera elskuð eins og þú hefðir viljað eða þurft á að halda sem barn allt þitt líf, er hræðileg tímasóun og hræðileg vegferð. Þér er ætlað svo miklu meira en það í þessu lífi, ekki láta þetta skemma fyrir þér.


Flestir vita hvernig uppalendur ,,ættu“ að hugsa um börnin sín. En sannleikurinn er sá að það eru ekki allir færir um það. Yfirleitt eru allir foreldrar samt að gera sitt besta miðað við þá aðstöðu sem þeir eru í og því er ekki við neinn að sakast. Og ég er ekki að ásaka neinn en það er ekki hægt að bæta upp of litla ást frá foreldrum með ást til annarra á fullorðinsárum.


Núna þegar þú veist hvaðan þetta óöryggið þitt kemur, getur þú sleppt tökunum á því. Þú getur lært að elska þig skilyrðislaust og veitt þér sjálfri þá ást og umhyggju sem þú þurftir þegar þú varst barn.


4. Veldu þig.

Ef þú upplifir að vera ekki séð eða hafa fengið nóga athygli af öðru hvoru eða báðum foreldrum þínum, er líklegt að þú sért á þeirri vegferð í gegnum lífið að vera séð og fá athygli einhvers með ást og umhyggju.

Er hinn aðilinn kannski betri en þú ? Upplifrðu að þú sért ekki eins góð og hann ? Þú laðaðir það að þér, með undirmeðvitun þinni. Þú laðaðir að þér aðila sem hjálpar þér að halda áfram að leita að ást og umhyggju á röngum stað – Þar sem þú færð hana ekki. Þú trúir ennþá að þú sért ekki alveg nógu góð til að vera þess virði – Hugsanavilla síðan þú varst barn.


Djúpt í undirmeðvitund þinni trúir þú því, að ef þú getur fengið þennan aðila til að velja þig, þá finnir þú loksins að þú ert elskuð eins og þú þurftir sem barn, verðir örugg og allt verði gott.


Ég ólst upp við ,,eðlilegt“ uppeldi á Íslandi eins og svo margir aðrir. Mér var aldrei hrósað og það var aldrei sagt ,,ég elska þig". Ég ásaka ekki foreldra mína, því þau eiga sína sögu eins og aðrir. Svona var bara tíðarandinn hjá mörgum. Ég var í stórum systkynahóp, pabbi vann mikið og hafði sjálfur fengið lítið af ást og umhyggju í uppeldinu. Mamma mín var mjög meðvirk og setti hann á stall og reyndi að fá hans athygli. Við systkynin reyndum það öll líka. Sem fullorðin reyndi ég að finna mér mann sem uppfyllti þessa ást og umhyggju sem ég reyndi að fá hjá mínum foreldrum. Þannig hélt ég að sæi virði mitt. Yrði örugg. Ég hélt að ef ég væri ekki elskuð af þessum aðilum væri ég ekki neitt.


Þegar ég lærði að velja mig, elska mig og virða, í stað þess að leita að utanaðkomandi viðurkenningu og ást, jókast sjálfstraust mitt og ég hætti að laða að mér aðila sem voru ófærir um að elska mig. Ég áttaði mig á að hamingjan kemur innan frá.


Gefðu þér tíma til að fara í þessa vinnu, að læra að elska þig, sjá þitt virði og efla þig. Settu þig í fyrsta sæti. Það er vitleysa að það þurfi að bitna á öðrum eða þeim sem þú elskar. Þú verður betri manneskja og þú hefur betri áhrif á þá sem í kringum þig eru.


5. Vertu í tengslum við tilfinningar þínar

Það er mjög mikilvægt að hlusta á líðan sína. Og fyrir þig og mig sem höfum haft þessa mögnuðu hæfileika að finna mjög fljótt ef eitthvað er ekki eins og það á að vera í sambandi. Þá getum við nýtt þá til að gera sambandið betra, í stað þess að láta tilfinningarnar taka stjórnina og fara inn í þráhyggjuna um að þóknast til að bjarga sambandinu sem við þekkjum svo vel.


Núna þegar þú veist hvernig þetta virkar, þarftu að átta þig á, að þessi tilfinning er bara byggð á minningum og vana úr fortíð þinni. Þetta eru líkamleg viðbrögð þín við að vera ekki séð. Ekki leyfa henni að taka völdin, vertu í meðvitund.


Leyfðu þér að skoða hvar í líkamanum þú upplifir þessa tilfinningu og hvað gerist í líkama þínum. Færðu hnút í magann, köfnunartilfinningu, þurrk í hálsinn ? Hvað sem það er, skaltu læra að þekkja þessi einkenni vel og nýta þau sem viðvörunarmerki um að halda ró þinni. Og láta tilfinninguna ekki yfirtaka þig.


Ræðið saman um hvað er ósagt. Ef þú ert í sambandi segðu hinum aðilanum frá hvernig þér líður og afhverju. Takist á við þetta saman. Með því að tala um þetta og sýna hvoru öðru virðingu geti þið heilað þetta og sleppt tökunum á þessu. Mjög líklega er hinn aðilinn að upplifa eitthvað sín meginn sem þarf að heila líka. Leitið faglegrar hjálpar ef þið þurfið.


6. Þínar þarfir eru mikilvægar

Þú ert stórkostleg, einstök og frábær manneskja og þú skiptir máli. Þarfir þínar eru því jafn mikilvægar og annarra.


Það getur enginn notið lífsins án þess að fá þarfir sínar uppfylltar og sjá að þær eru jafn mikilvægar og annarra.


Finndu þér blað og penna og skrifaðu niður þínar þarfir, í samböndum, samskiptum og lífinu. Skrifaðu niður hvað skiptir þig máli og lestu þær reglulega yfir svo hugur þinn venjist þeim.


Þú munt ekki aðeins ná utan um þarfir þínar heldur mun undirmeðvitund þín átta sig á þínum þörfum. Þegar þú skrifar þær niður eru meiri líkur á að þú mætir þeim. Hugur þinn fer að reyna að hjálpa þér að uppfylla þær af því þú þekkir þær. Þú áttar þig líka betur á því, þegar þeim er ekki mætt og þá geturðu brugðist við, með því að ræða um þær. Þorir frekar að segja þær upphátt þannig aðrir geti líka tekið tillit til þinna þarf.


Þú munt síður sitja föst í aðstæðum þar sem þú ert vansæl því þú upplifir að þú ert ekki þess virði.


7. Fylgdu hjarta þínu

Ég veit ekki hvort þú hefur áttað þig á því, en það hafa allir tilgang í þessu lífi, líka þú!


Þú hefur ástríður og einstaka hæfileika sem þú átt að nota í þessu lífi til að vinna tilgang þinn.


Mín reynsla er sú að það að gera það sem virkilega gleður mig og mér finnst gaman er það sem skiptir miklu máli. Velja að gera það sem mig langar. Og mundu að það er ekki sjálfselska að sinna sínum þörfum og fylgja sínu hjarta.


Ég hef búið mér til líf þar sem ég er hamingjusöm og líður vel. Ég elska mig og hlúi að mér. Ég hlúi líka að börnunum mínum og næri þau sambönd sem ég vil næra. Ég geri það sem nærir sálin mína og hjartað mitt.


Ég hlusta á innsæið mitt og hjartað mitt og þannig upplifi ég að ég sé alltaf að gera það sem er rétt fyrir mig. Ég treysti á mig, ég styð mig og ég elska mig. Þannig get ég elskað aðra líka. Ég elska að vera í ástarsambandi þar sem mér er mætt af skilningi og ást. En fyrst og fremst veit ég að það sem skiptir mestu máli er að elska mig skilyrðislaust. Það þarf ég næra alveg eins og aðra ást, Alltaf.


Að lokum

Ef þú velur þig og ferð í þessa vinnu sem ég tala um í punktunum hér fyrir ofan, skaltu muna að þetta tekur tíma, ekki rífa þig niður þótt þú misstígir þig eða þér finnist þú ekki breytast nógu hratt.


Fyrsta skrefið ertu þegar búin að taka, með því að skilja. Næsta skref er að setja inn daglegar æfingar út frá þessum punktum. Þá muntu fljótt fara að sjá breytingar hjá þér og sjálfstraustið þitt eflist þegar þú ferð að sjá það. Mundu eftir að hrósa þér fyrir litlu hlutina sem þú tekur eftir.


Þegar sjálfstraustið þitt fer að aukast mun sjálfsvirðing þín gera það líka. Þú hættir að fórna þínum þörfum fyrir aðra og þú ferð að sjá þitt virði.


Mig langar að lokum að benda þér á að það að vera ein er alls ekki slæmt. Ég var ein í nærri 7 ár á meðan ég var að vinna í minni sjálfsvirðingu. Þegar þú ferð að tengjast þér og elska þig áttarðu þig á að það er miklu betra að vera ein en vera í sambandi sem er eitrað á einhvern hátt eða í sambandi með aðila sem er ófær um að elska þig. Þér gæti jafnvel fundist svo gott að vera ein að þú vilt ekki fara í samband í bráð. Þannig var það hjá mér. Ég treysti mér ekki í það lengi, lengi. Ég var viss um að ég laðaði að mér eins samband. En þá er bara að virða það við sig og láta ekki aðra pressa á eitthvað sem maður er ekki tilbúin í.


Mundu að þú ert aldrei að missa af neinu, ekki hinni sönnu ást. Það sem á að gerast, gerist þegar það á að gerast og þá munt þú finna að þú ert tilbúin ef þú elskar þig.


Kærleikur

Björk Ben

270 views

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page