top of page

Ert þú virkilega þú eða ertu í hlutverki?


Við fæðumst í þennan heim algerlega við sjálf og uppfull af kærleika. Við erum opin og einlæg og við komum fram eins og við erum. ,,Börn eru svo blátt áfram“ er sagt, og það er svo rétt. Þau eru það, af því að þau eru ennþá þau sjálf fyrstu árin sín. Þau þora að tjá sig og þau þora að fylgja innsæinu sínu. Þau eru ekki meðvirk og þau eru ekki búin að mótast af umhverfinu sínu og gildunum sem við höfum sem uppaldendur.

 

Á bilinu 7-9 ára byrjar þessi mótun, við lærum að að við meigum ekki haga okkur á ákveðin hátt. Við lærum að það má ekki segja hvað sem er. Við lærum að hafa skoðanir sem aðrir hafa kennt okkur. Þetta verður til þess að við hættum að vera við sjálf.

 

Við förum að minnka okkur og beygja til að öðrum líki við okkur. Því við viljum bara halda friðinn. Við viljum að öðrum líki við okkur. Við viljum sérstaklega, að fólkið sem stendur okkur næst líki við okkur. Það þarf ekki ofbeldi til að barn byrji að beygja sig. Við erum þannig gerð þegar við erum opin og einlæg, að við viljum trúa því, að allir séu þar líka og þar af leiðandi lærum við haga okkur eins og aðrir þegar við erum börn.

 

Við förum í hlutverk, erum jafnvel í einu hlutverki við Mömmu og öðru við Pabba eða einu heima fyrir og öðru í skólanunum eða með vinunum. Við hættum að vera samkvæm sjálfum okkur, við förum að reyna að ganga í augun á öllum og vera eins og hinir. Vera eins og samfélagsmiðlastjörnurnar.

 

,,Börn læra það sem fyrir þeim er haft,“ og það er svo sannarlega rétt.

 

Þegar við erum svo orðin fullorðin og áttum okkur á að jú, við meigum vera öðrvísi og við eigum rétt á að vera við sjálf, erum við, því miður, búin að gleyma því hver við erum. Við höfum ekki leyft okkur að vera við sjálf í mörg ár.

 

En málið er að innra með okkur býr sál, sál sem fæddist í líkama og fékk persónuleika, til þess að koma inn í þetta líf til að læra og þroskast. Og þessi sál fer að minna á sig, hún fer að segja okkur að við séum ekki við sjálf. Að við þurfum að finna okkur sjálf aftur. Að við séum týnd. Að við þurfum að hætta að vera í hlutverki og þora að vera einlæg og kærleiksrík eins þegar við vorum börn. Þora að taka ákvarðanir fyrir okkur sjálf. Þora að gera hluti sem þykja ekki réttir, gáfulegir eða skynsamir út frá skoðunum annarra. Hún minnir okkur á að sýna hugrekkið okkar og skoða hvað það er sem við eigum að læra í þessu lífi.

 

Margir eru að ,,vakna“ og átta sig á þessu, einmitt um þessar mundir, átta sig á að við erum ekki í þessu lífi til að fara í gegnum, daga, vikur eða heilu mánuðina án þess að líta inn á við og vera með okkur sjálfum. Hlusta á okkar innri rödd (sálina) og vera meðvituð.

 

En svo eru líka aðrir sem treysta sér ekki í að tengjast sér, nota fýkn eða þurfa alltaf að vera uppteknir, til að þurfa ekki að vera með sjálfum sér. Geta ekki setið kyrrir, geta ekki hugsað eina hugsun í einu, eru búnir að þróa með sér þvílíkann ótta og eru í vörn. Treysta sér ekki til að vera með sjálfum sér.

 

Ég ólst upp í ,,venjulegri“ íslenskri fjölskyldu eins og svo margir aðrir. Hjá mömmu og pabba og bræðrum mínum fjórum. Uppeldið var ósköp eðlilegt og ég fór svo að heiman og byrjaði mitt fullorðinslíf.

 

En alveg eins og flestir aðrir, lærði ég að beygja mig og minnka sem barn. Ég hætti að vera ég, ég trúði því að ég þyrfti að berjast fyrir tilveru minni og ég þyrfti alltaf að gera það ef ég ætti að ná mínu fram. Ég lærði að treysta ekki og hleypa ekki fólki að mér auðveldlega. Ég lærði að ég væri ekki nógu góð, ég þyrfti að standa mig enn betur til að vera séð. Ég lærði að ég væri öðrvísi og félli ekki í hópinn. Ég lærði að mínar skoðanir skiptu ekki máli, væru jafnvel kjánalegar og ég væri heimsk.

 

Ég lærði að konur ættu að vera til staðar fyrir karlmenn og þær ættu að setja þeirra þarfir fram yfir sínar. Ég lærði að þeir ættu að ráða og við ættum að hlusta og gera eins og okkur var sagt. Ég lærði að hafa ekki skoðanir. Ég lærði að gera fyrir aðra, áður en ég gerði fyrir mig. Ég lærði að segja já þegar mig langaði að segja nei til að halda friðinn. Ég lærði að éta ofan í mig sannleikann og halda fram lýgi af því það kom sér betur fyrir aðra í kringum mig.

 

Allt þetta lærði ég sem barn og fór með út í lífið. Ég mátaði svo þau hlutverk sem ég kunni við aðstæðurnar og fólkið í mínu lífi. Ég var meðvirk og leyfði manninum mínum að stjórna, setti hann á stall og þóknaðist. Ég barðist og barðist í vinnu og stóð mig vel. Ég treysti engum og fannst ég öðrvísi og reyndi að falla í hópinn.

 

Ég var reið og óhamingjusöm


Þegar ég var komin á fimmtugsaldurinn ,,vaknaði ég“ óhamingjusöm, þreytt og reið innra með mér. Ég skildi ekki hvað var í gangi til að byrja með. Ég átti tvö lítil börn og var í hjónabandi sem ég fann innst inni að ég ætti ekki að vera í.

 

Þegar ég þorði loksins að líta inn á við, fann ég að ég var reið út í sjálfa mig. Ég var reið út í sjálfa mig fyrir að standa ekki með mér og þora ekki að feta leiðina í gegnum lífið á mínum forsendum en ekki annarra. Ég var reið út í mig fyrir að þora ekki að vera ég!

 

Síðan þá hef ég fetað mína leið í átt að því að þora að vera ég aftur, því ég veit að það er það sem mér er ætlað, alveg eins og þér er ætlað að þora að vera þú!

 

Ég hef lært að eina leiðin til að upplifa varanlega hamingju er að vera ég sjálf, þora að vera ég sjálf og samkvæm sjálfi mér.

Ég hef lært að þreyta og orkuleysi, stafar ekki af því að ég hef of mikið að gera í lífi mínu, heldur af því að ég er ekki í tengingu við sjálfa mig og að ég er að eyða orkunni minni í eitthvað sem nærir mig ekki andlega.

Ég hef lært að reiðin mín var sálin að reyna að vekja mig, reyna að hjálpa mér að sjá að ég væri týnd, hrædd og alls ekki ég.

 

Ég hef lært að losa mig undan áhrifum fortíðarinnar og því sem ég lærði sem barn. Losa mig undan viðhorfum og skoðunum annarra sem ég hef ekki og vil ekki hafa. Ég hef lært að þora að vera ég og treysta öðru fólki. Ég hef lært að koma heiðarlega fram og tjá mig fallega en á sama tíma vera hreinskilin.

 

Ég hef líka lært að við erum öll í þessu lífi til að læra af erfiðleikum sem við þurfum að takast á við. Við erum hér til að þroskast andlega og skilja lífið.

 

Ég hef líka lært að allir eru að gera sitt besta miðað við sína innri líðan og sín viðhorf og því sem þeir trúa á hverjum tíma.

 

Við berum ekki ábyrgð á því sem gerist þegar við erum börn. Við höfum ekki þroska til þess. En við berum svo sannarlega ábyrgð á að taka utan um það sem við áttum að læra, þegar við erum orðin fullorðin og þroskast þannig sem einstaklingar. Finna okkur sjálf á ný og tengjast okkur á meðvitaðan hátt, svo við þorum að vera við sjálf.

 

Þegar við erum við sjálf, komum við fram af kærleika og samkennd og við sýnum okkur og öðrum skilning. Við reynum ekki að stjórna öðrum eða troða okkar skoðunum upp á aðra. En við þorum að tjá okkur og setja okkur í fyrsta sæti líka!

 

Nú langar mig að spyrja þig: ,,Ert þú virkilega þú? Eða ertu í hlutverki?“


Svaraðu eins heiðarlega og þú getur. Það er engin skömm af svarinu sama hvað það er.

Ég veit að þetta er erfið spurning og ég veit að þú gætir jafnvel farið í vörn og móðgast við þessa spurningu. En veistu, það er einmitt málið, þá ertu mjög líklega ekki þú...

 

Að lokum er mikilvægt að taka fram að ég elska foreldra mína og bræður og ég veit í dag að allir voru að gera eins vel og þeir gátu og vissu og kunnu. Gildin og tíðarandinn. Þeirra uppeldi og líf, allt þetta mótar okkur á einhvern hátt og ef við erum ekki vakandi og þorum að vera við sjálf, verðum við eins og aðstæður gefa okkur hverju sinni. Þá erum við ekki við stjórnina á okkar lífi, heldur sveiflumst til og frá, eins og aðstæðurnar sem við erum í.

 

Ég tek líka fram að það að dæma aðra eða sjálfan sig er aldrei í lagi. Þegar við dæmum aðra erum við í raun að friða sjálf okkur, því við upplifum að við séum ekki nógu góð og höfum því þörf fyrir að dæma aðra til að vera ekki verri. Við fáum þannig neikvæða næringu sem nærir okkar innri óánægju og óhamingju.

56 views

Recent Posts

See All
bottom of page